Ferill 328. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 414 – 328. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    Í stað 2.–3. málsl. 26. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir svohljóðandi: Stuðullinn skal miðast við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá upphafi til loka 12 mánaða tímabils. Miða skal breytinguna við þann mun sem verður á vísitölu neysluverðs til verð tryggingar sem gildir fyrir janúarmánuð á tekjuári og vísitölu neysluverðs til verðtryggingar sem gildir fyrir janúarmánuð á álagningarári. Hafi aðili annað reikningsár en almanaksárið skal miða stuðulinn við þann mun sem verður á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar sem gildir fyrir fyrsta mánuð tekjuárs og vísitölu neysluverðs til verðtryggingar sem gildir fyrir fyrsta mánuð eftir lok þess tekjuárs.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á A-lið 30. gr. laganna:
a.    Við 5. tölul. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Að auki allt að 2% af heildarlaunum vegna iðgjalda sem greidd eru til lífeyrissjóða, sbr. 1. málsl., vegna skyldutryggingar lífeyrisréttinda eða til aðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, enda sé iðgjaldinu alfarið varið til lífeyrissparnaðar skv. II. kafla sömu laga. Skilyrði frádráttar samkvæmt þessum lið er að iðgjöld séu greidd reglulega í mánuði hverjum.
b.    Við 6. tölul. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Að auki allt að 2% af heildarlaunum vegna iðgjalda sem greidd eru til lífeyrissjóða, sbr. 1. málsl. vegna skyldutryggingar lífeyrisréttinda eða til aðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, enda sé iðgjaldinu alfarið varið til lífeyrissparnaðar skv. II. kafla sömu laga. Skilyrði frádráttar samkvæmt þessum lið er að iðgjöld séu greidd reglulega í mánuði hverjum.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 69. gr. laganna sbr. lög nr. 65/1997:
a.     5. málsl. 3. mgr. fellur brott.
b.     Á eftir 7. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
         Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. þessa stafliðar má ákvarða barnabætur með börnum sem ekki eru heimilisföst hér á landi en eru á framfæri ríkisborgara hins Evrópska efnahagssvæðis, enda starfi hann og sé skattskyldur skv. 1. gr. hér á landi. Skilyrði fyrir ákvörðun barnabóta samkvæmt þessari málsgrein eru þau að börnin séu heimilisföst í einhverju ríkja hins Evrópska efnahagssvæðis og að fram séu lögð fullnægjandi gögn frá bæru stjórnvaldi í því landi þar sem börnin eru heimilisföst. Heimilt er að setja nánari reglur um framkvæmd þessarar málsgreinar í reglugerð.
c.    Á eftir orðinu „ofgreiddra barnabóta“ í 8. mgr. kemur: þar með taldar ofgreiddar barnabætur erlendis.

4. gr.

    4. tölul. 71. gr. laganna sbr. c-lið 11. gr. laga nr. 137/1996 orðast svo: Tekjuskattur manna sem hafa takmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 3. gr. af arði, leigutekjum og söluhagnaði skal ákvarðaður skv. 3. mgr. 67. gr. Þó skal tekjuskattur af hagnaði af sölu hlutabréfa sem er umfram þau mörk sem um ræðir í 3. mgr. 67. gr. vera skv. 2. tölul.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skulu ákvæði um viðbótarfrádrátt skv. 2. gr. ekki koma til framkvæmda fyrr en við staðgreiðslu á árinu 1999 og álagningu á árinu 2000.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í þessu frumvarpi erum lagðar til nokkrar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar sem snerta breytingar sem gerðar voru um síðustu áramót á viðmiðunargrundvelli verðleiðréttinga í skattskilum. Ekki er um efnisbreytingu að ræða, heldur er framsetningu breytt til þess að skýra núverandi lagatexta.
    Í öðru lagi eru ákvæði sem rýmka heimildir einstaklinga til skattfrádráttar vegna lífeyris iðgjalda. Um er að ræða viðbótarfrádrátt allt að 2% af heildarlaunum. Breyting þessi er í samræmi við niðurstöðu sem varð í framhaldi af starfi nefndar er samdi frumvarp til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða en í því frumvarpi er gert ráð fyrir að heimildir til skattfrádráttar vegna lífeyrisréttinda verði rýmkaðar.
    Í þriðja lagi eru lagðar til smávægilegar leiðréttingar á barnabótaákvæði laganna. Ekki er um að ræða efnislegar breytingar, nema bætt er við ákvæði um heimild til þess að draga frá barnabótum hérlendis ofgreiddar barnabætur sem viðkomandi hefur fengið erlendis.
    Í fjórða lagi er lagt til að tekin verði af öll tvímæli í lögunum um að einstaklingum með takmarkaða skattskyldu skv. 3. gr. laganna beri að greiða 20% í söluhagnað samkvæmt meginreglunni í 2. tölul. 1. mgr. 71. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Um síðastliðin áramót gekk í gildi breyting á viðmiðunargrundvelli verðleiðréttinga í skattskilum. Í stað vísitölu byggingarkostnaðar er nú miðað við vísitölu neysluverðs. Í ljós hefur komið að tilvísun í hinum nýja lagatexta er ekki nægilega nákvæm. Er þessu ákvæði ætlað að bæta úr því.

Um 2. gr.

    Með þessu ákvæði er verið að rýmka heimildir einstaklinga til skattfrádráttar vegna líf eyrisiðgjalda.

Um 3. gr.

     Í 1. mgr. A-liðar 69. gr. um barnabætur kemur fram að barnabætur sambúðarfólks sem uppfyllir í lok tekjuársins skilyrði fyrir samsköttun skuli ákvarðast á sama hátt og hjá hjónum. Þetta þýðir að framfærendur, sem eru í óvígðri sambúð og uppfylla skilyrði fyrir samsköttun, fá ekki barnabætur sem einstæðir foreldrar. Í 5. málsl. 3. mgr. sömu greinar segir hins vegar: „Búi framfærandi barns í óvígðri sambúð skal hann ekki teljast einstætt foreldri í þessu sambandi“. Þar sem áður hefur komið fram hvernig ákvarða skal barnabætur hjá fólki í óvígðri sambúð er þessum málslið ofaukið og er því lagt til í a-lið að hann verði felldur brott. Í b-lið er lagt til að tekið verði inn í lögin ákvæði sem féll niður sl. vor þegar gerðar voru breytingar á ákvæðum um barnabætur og barnabótaauka. Snýr ákvæðið að heimild til þess að ákvarða ríkisborgurum á Evrópska efnahagssvæðinu sem eru skattskyldir hér á landi og eiga börn sem ekki eru heimilisföst hér á landi barnabætur. Í c-lið er gert ráð fyrir heimild til þess að draga frá barnabótum hérlendis ofgreiddar barnabætur sem viðkomandi hefur fengið erlendis.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að tekin verði af öll tvímæli um að söluhagnaður af hlutabréfum þeirra manna sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi, umfram almenn fjárhæðarmörk sem undir fjármagnstekjuskatt falla, skuli skattlagður í 20% tekjuskattsþrepi að viðbættu útsvari.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 75/1981,
um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta miðar að nokkrum breytingum á ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt. Ekki er gert ráð fyrir að þær hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs að undanskildu nýju ákvæði um heimild til þess að greiða barnabætur til ríkisborgara á Evrópska efnahagssvæðinu vegna barna sem ekki eru heimilisföst hér á landi. Áhrif þeirrar breytingar eru talin verða óveruleg.